Ýmis verkefni
Ýmis verkefni
Hér á eftir fer upptalning nokkurra verkefna sem unnið var að á árinu 2017:
- Á árinu var boðið upp á ýmsa viðburði í tengslum við þau tímamót að 100 ár voru liðin frá verklokum við Gömlu höfnina árið 1917. M.a. var myndasýning á Miðbakka tileinkuð þessum tímamótum auk þess sem ljósmyndasýning var sett upp í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þá var boðið upp á sögugöngu um hafnarsvæðin í Reykjavík og á Akranesi.
- Gerðir voru tveir þættir um Faxaflóahafnir sf. í samstarfi við sjónvarpsstöðina Hringbraut þar sem sögu og starfsemi fyrirtækisins voru gerð skil.
- Samþykkt var að efna til samkeppni um listaverk í Gömlu höfninni til að minnast atvinnuþátttöku kvenna við höfnina. Niðurstaða samkeppninnar lá fyrir í nóvembermánuði og var dómnefnd sammála um að hlutskarpast væri verkið Tíðir. Bak við það standa Hulda Rós Guðnadóttir, myndlistarmaður, Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, og Gísli Pálsson fornleifafræðingur. Fyrirhugað er að verkið verði sett upp í Vesturbugt þegar framkvæmdir á svæðinu leyfa.
- Unnið var áfram að gerð eigendastefnu Faxaflóahafna sf. þar sem fram verða dregin meginmarkmið í starfsemi fyrirtækisins, skyldur þess og fjárhagsleg viðmið.
- Faxaflóahafnir sf. eru stærsti hluthafi í Eignarhaldsfélaginu Speli ehf., sem á og rekur Hvalfjarðargöng. Spölur mun ljúka verkefni sínu að greiða upp kostnað við gerð Hvalfjarðarganga síðla sumars eða í byrjun hausts 2018. Þar með lýkur þátttöku Faxaflóahafna í því verkefni, en umræða er um nauðsyn þess að endurbæta veginn um Kjalarnes og gerð nýrra ganga þannig að öryggi vegfarenda sé sem best tryggt.
- Hafnarhúsið í Reykjavík, sem byggt var á árunum 1934 -1938, þarfnast endurbóta, en viðbygging sem byggð var á húsið upp úr 1960 hefur ekki staðist tímans tönn. Fyrir liggur að taka ákvörðun um framtíðarhlutverk hússins.