Ávarp stjórnarformanns

Hafnir eru Íslendingum mikilvægar og hafnir Faxaflóahafna sf. gegna lykilhlutverki í flutningum til og frá Íslandi auk þess sem hafnarsvæðin eru mikilvægur þáttur samfélagsins, ekki síst í Reykjavík og á Akranesi.  Rekstur Faxaflóahafna gekk vel á árinu 2017 og fyrirtækið hefur viðhaldið fjárhagslegum styrk sínum samhliða því að vinna að stórum og fjárfrekum verkefnum. Á síðustu tveimur árum hefur verið unnið að nýjum hafnarbakka utan Klepps, sem ætlað er að þjóna næstu kynslóð flutningaskipa og að því verkefni loknu bíða stór og spennandi verkefni, sem ætlað er að styrkja enn frekar þessa mikilvægu innviði til lengri tíma.  Breyttir tímar og nýjar áskoranir kalla á að Faxaflóahafnir þróist samhliða, þetta má m.a. sjá í umhverfismálum, sem sífellt skipa stærri sess.  Á árinu 2017 náði fyrirtækið þeim góða áfanga að fá vottun á sitt umhverfisstjórnunarkerfi fyrst hafna á Íslandi.  Næsta skref er að innleiða vottað öryggisstjórnunarkerfi enda mikilvægt að umhverfi og öryggi séu í forgrunni hafnarstarfseminnar.  Hafnarstarfsemin er nauðsynlegur þáttur og mikilvægur vettvangur atvinnulífs, hvort heldur er í fiskvinnslu og útgerð, vöruflutningum eða ferðaþjónustu.  Hafnirnar eru atvinnusvæði sem hafa einnig aðdráttarafl þeirra sem vilja njóta nálægðar við fjölbreytt mannlíf.  Það er því mikilvægt að vel sé staðið að umhverfismálum og öryggi starfsmanna, viðskiptavina og almennings sem fara um hafnarsvæðin. 

Það er staðreynd að hafnarrekstur hefur verið karllæg starfsemi og eru karlmenn í miklum meirihluta starfsfólks í dag en við sjáum fram á breytingar á því framtíðinni.  Hafnarstarfsemin getur klárlega hentað fólki af öllum kynjum og viljum við sjá fjölbreyttan hóp starfsmanna njóta sín hjá fyrirtækinu.  Í undirbúningi er að starfsemi Faxaflóahafna lúti vottaðri jafnlaunastefnu, sem tryggi öllum jöfn laun fyrir sömu vinnu.  Með því stefnum við að því að útrýma kynbundnum launamun hjá fyrirtækinu.

Á árinu 2016 var ákveðið að taka farþegagjöld af viðskiptavinum Faxaflóahafna.  Ákvörðunin var tekin og kynnt með þeim góða fyrirvara að álagning gjaldanna hæfist ekki fyrr en árið 2018, það hefur gengið eftir.  Þróun í hafsækinni ferðaþjónustu hefur verið hröð á síðustu árum hvort heldur er með auknum komum skemmtiferðaskipa eða siglingum hvalaskoðunarfyrirtækja.  Sú þróun kallar á bætta aðstöðu farþega bæði í Gömlu höfninni og í Sundahöfn.  Farþegagjald er því eðlileg tekjuöflun til að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum og endurbótum, enda mikilvægt að hafsækinni ferðaþjónustu sé ætlað að þróast til lengri tíma við góðar aðstæður í höfnunum.

Hafnarsvæði Faxaflóahafna eru mismunandi.  Í Gömlu höfninni er útgerð og fiskvinnsla í bland við þjónustu við skip og ferðamenn, í Sundahöfn vöruflutningar og skemmtiferðaskip, á Akranesi fiskur og á Grundartanga flutningar vegna iðjuveranna þar.  Hvert svæði um sig skiptir miklu máli þó svo að starfsemin sé mismunandi.  Á Akranesi hefur tekist að verja óhagfellda þróun í löndun á fiski og vilji er til að gera betur þannig að fleiri nýti sér kosti þeirrar ágætu fiskihafnar.  Ferðaþjónusta gæti einnig verið áhugaverður vaxtarbroddur þar.  Á Grundartanga hefur Þróunarfélag Grundartanga unnið að framtíðarstefnu fyrir svæðið, sem m.a. byggi á þeim kostum sem Grundartangi hefur að bjóða fyrir fjölbreytta starfsemi en með lágmarks umhverfisáhrifum.

Tækifærin á hafnarsvæðum Faxaflóahafna eru mörg og mikilvægt að nýta þau sem best.  Skynsamleg nýting lands í þágu hafnarstarfseminnar er þjóðhagslega mikilvæg, eigendum fyrirtækisins nauðsyn og forsenda öflugs athafna- og atvinnulífs.  Faxaflóahafnir eru í stakk búnar til að verða áfram hornsteinn í samstarfi sveitarfélaga sem vilja ná árangri íbúunum til heilla.

Kristín Soffía Jónsdóttir,
stjórnarformaður