Ávarp hafnarstjóra

Á liðnu ári fögnuðu Faxaflóahafnir sf. því að 100 ár voru liðin frá verklokum  framkvæmda við Gömlu höfnina.  Sú framkvæmd markaði tímamót í íslensku samfélagi.  Í byrjun 20. aldar urðu þáttaskil í íslensku samfélagi með tilkomu heimastjórnar þar sem Íslendingar tóku í eigin hendur uppbyggingu mikilvægra innviða, sem þær kynslóðir sem eftir fylgdu hafa  notið góðs af.  Fyrstu tveir áratugir 20. aldar voru í raun þjóðarátak til sjálfstæðis og þar gegndi uppbygging Gömlu hafnarinnar veigamiklu hlutverki.  Gerð Gömlu hafnarinnar hafði einnig mikil áhrif á þróun atvinnulífs og byggðar í Reykjavík og þau áhrif eru enn til staðar bæði í Gömlu höfninni og Sundahöfn, sem tók við sem megingátt vöruflutninga til og frá landinu fyrir liðlega 50 árum.

Þessara tímamóta var minnst með ýmsum hætti og áhersla lögð á að rifja upp sögu og þróun hafnarinnar, en ekki síður mikilvægi starfseminnar á hafnarsvæðunum. Síðustu árin hafa umhverfismál orðið sífellt mikilvægara viðfangsefni, enda fjölmargir umhverfisþættir sem snerta rekstur hafnarmannvirkja og byggingu þeirra.  Það var því sérstakt ánægjuefni að ná þeim áfanga á árinu að taka upp vottað umhverfisstjórnunarkerfi fyrst hafna á Íslandi.  Innleiðing á slíku kerfi leggur þær skyldur á herðar fyrirtækinu að starfa í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru og þar skiptir mestu að allir sem koma að málum fylgi öguðu vinnulagi svo árangur skili sér.  Umhverfismál eru langtímaverkefni og stefnan annars vegar sú að hafa jákvæð áhrif á það sem kostur er og hins vegar að lágmarka umhverfisáhrif af rekstri og gerð hafnarmannvirkja.

Á árinu 2017 gekk rekstur Faxaflóahafna vel.  Með auknum flutningum og vaxandi komum skemmtiferðaskipa varð tekjuauki af starfseminni.  Unnið var að gerð nýs hafnarbakka utan Klepps, sem þjóna mun næstu kynslóð flutningaskipa auk þess sem unnið var að undirbúningi skipulags á þeim hluta Sundahafnar sem er til þróunar.  Mikilvægt er að hafa í huga að sú aðstaða sem er í Sundahöfn gegnir lykilhlutverki í innflutningi og útflutningi á landinu og slíkri aðstöðu verður ekki komið upp annars staðar nema á löngum tíma og með verulegri fjárfestingu.  Umhverfislega er staðsetning þessara flutninga hagkvæm og með góðri nýtingu lands, á Sundahöfn að geta þjónað mikilvægu hlutverki sínu til langs tíma. 

Á starfssvæði Faxaflóahafna er starfsemin á hafnarsvæðunum uppspretta athafna- og atvinnulífs, sem er þeim sveitarfélögum, sem eru eigendur fyrirtækisins mikilvæg.  Það er fjölbreytt og spennandi verkefni að finna þær leiðir sem styðja við þróun atvinnulífs í sátt við íbúana og umhverfið.  Tækifærin eru og verða fyrir hendi, en mikilvægt að stefnan sé vel skilgreind þannig að hámarksárangur náist og að hafnarsvæðin hafi þau jákvæðu áhrif sem þessir mikilvægu innviðir eiga að skila.  Við upphaf hafnargerðar fyrir 100 árum var lagður hornsteinn að sjálfstæði landsins.  Öflug hafnarstarfsemi er enn sem fyrr snar þáttur í að viðhalda og styrkja þann grundvöll sem kynslóð síðustu aldar lagði.

Gísli Gíslason,
hafnarstjóri