Niðurlag

Niðurlag

Starfsemi Faxaflóahafna sf. hefur víðtæk áhrif í þeim sveitarfélögum þar sem fyrirtækið er með virk hafnarsvæði. Í Reykjavík eru þúsundir starfsmanna innan hafnarsvæðanna í Gömlu höfninni og Sundahöfn. Á Akranesi er mikilvægt að verja stöðu hafnarinnar sem fiskihafnar auk þess sem hafnaraðstaðan þjónar sem viðleguaðstaða skipa sem eru að taka um borð nýjustu tækni í meðhöndlun á afla. Stærstur hluti tekna Hvalfjarðarsveitar kemur af starfseminni á Grundartanga, en atvinnusvæðið þar skapar liðlega 1.000 föst störf auk afleiddra starfa. Atvinnulífið á hafnarsvæðum Faxaflóahafna á einnig sinn þátt í að stækka atvinnusvæðið beggja vegna Hvalfjarðar, sem kemur íbúum höfuðborgarsvæðisins og suðurhluta Vesturlands til góða. Nú þegar liðlega 100 ár eru liðin frá byggingu Gömlu hafnarinnar í Reykjavík þá hefur hafnarstarfsemin enn mikil áhrif á athafna- og atvinnulíf eins og verið hefur frá lokum hafnargerðar. Til þess að hafnir Faxaflóahafna gegni hlutverki sínu áfram á komandi áratugum er mikilvægt að byggt sé upp af framsýni með það leiðarljós að starfsemin sé í sátt við umhverfi sitt. Á komandi árum þarf að leysa stór verkefni og án vafa munu ný tækifæri kalla á framkvæmdir og lausnir, sem mikilvægt er að sinna. Þess vegna þurfa Faxaflóahafnir að halda fjárhagslegum styrkleika sínum og eigendur fyrirtækisins að hafa skýra stefnu um hlutverk þess og framtíðarverkefni.

Við stofnun Faxaflóahafna sf. settu eigendur sér metnaðarfull markmið, sem almennt hafa gengið eftir, en ávallt er nauðsynlegt að skoða og endurskoða hvernig ná megi bestum árangri í þágu eigenda og viðskiptavina hafnarinnar. Á hafnarsvæðunum verða til tækifæri sem mikilvægt er að nýta til hagsbóta fyrir samfélagið.

Reykjavík, 25. apríl 2018

Kristín Soffía Jónsdóttir,
formaður stjórnar Faxaflóahafna sf.

Gísli Gíslason,
hafnarstjóri