Inngangur

Inngangur

Árið 2017 markaði þau tímamót í starfsemi Faxaflóahafna sf. að 100 ár voru frá verklokum hafnarframkvæmda við Gömlu höfnina í Reykjavík árið 1917. Þeirra tímamóta var minnst með ýmsum hætti en hafnargerð í Reykjavík hafði veruleg áhrif á þróun og vöxt höfuðborgarinnar. Enn í dag er starfsemi hafnanna, í Gömlu höfninni og í Sundahöfn, höfuðborginni mikilvæg. Með sameiningu hafna við Faxaflóa árið 2005, undir nafni Faxaflóahafna, var stigið mikilvægt skref í rekstri og uppbyggingu þessara mikilvægu innviða. Á þeim 13 árum sem Faxaflóahafnir hafa starfað hefur afkoma félagsins verið góð og stór verkefni leyst án stuðnings eða styrkja opinberra aðila. Fjárhagsstaða fyrirtækisins hefur verið sterk enda er það forsenda þess að fyrirtækið geti leyst verkefni sín til lengri tíma. Aukin umsvif og hækkandi tekjur samhliða lágum langtímaskuldum hafa styrkt fjárhagsstöðu fyrirtækisins, sem er þannig sjálfbært um nauðsynlegustu framkvæmdir þess og endurbætur. Markviss uppbygging og viðhald mannvirkja er hins vegar forsenda öflugra atvinnulífs á starfssvæðum fyrirtækisins.

Rekstur Faxaflóahafna var á árinu 2017 betri en lagt var upp með í fjárhagsáætlun ársins. Tekjur voru umfram áætlun og rekstur innan marka fjárhagsáætlunar að því undanteknu að óvænt álögð gjöld vegna lífeyrismála drógu úr jákvæðri afkomu.

Eignaraðilar Faxaflóahafna sf. og eignarhlutir þeirra voru í lok desember 2017 eftirfarandi:

Reykjavíkurborg 75,5551%
Akraneskaupstaður 10,7793%
Hvalfjarðarsveit 9,3084%
Borgarbyggð 4,1356%
Skorradalshreppur 0,2216%