Tölfræði

Tölfræði

Helstu tölur varðandi flutninga, afla og skipakomur sýna að vöruflutningar hafa aukist og tekjur af vörugjöldum vaxið um 10,5% á milli ára. Flutningar í tonnum talið jukust um 4,1% og voru alls liðlega 3,6 milljónir tonna. Hægt og bítandi hefur innflutningur aukist, en útflutningur verið nokkurn veginn sá sami í tonnum talið. Merkjanleg aukning var í svonefndum milliflutningum (transit) en það er vara sem flutt er til landsins og út aftur. Aðallega er um að ræða vöru sem fer á milli Evrópu og Bandaríkjanna með viðkomu á Íslandi.

Ofangreind mynd sýnir þróun flutninga miðað við magn í tonnum. Hins vegar sýnir myndin hér að neðan þróun í gámaeiningum. Þegar skoðuð er þróun gámaflutninga, sem mældir eru í TEU – einingum (Twentyfoot Equivilent Unit) þá má sjá að verulegur vöxtur hefur orðið síðustu ár. Fjöldi gámaeininga var á árinu 2017 alls 350.000 TEU sem er um 75% aukning frá árinu 2011. Aukningin í gámaeiningum á milli áranna 2016 og 2017 var 13,6%. Þar sem innflutningur er meiri en útflutningur og Ísland endastöð varnings þá nýtast ekki allir gámar til útflutnings og því verður að flytja þá tóma út aftur. Heildarafli sem landaður var hjá Faxaflóahöfnum var minni en árið 2016. Í Reykjavík er uppistaðan í aflanum bolfiskur en á Akranesi er uppistaðan í lönduðum afla uppsjávarfiskur. Á árinu 2017 var verkfall sjómanna sem þýddi að nánast enginn afli kom á land í janúarmánuði og með breytingu á stjórnun fiskveiða var gert heimilt að flytja um 30% af óveiddum kvóta yfir á næsta fiskveiðiár. Í ljósi stöðu íslensku krónunnar virðist sem nokkur tilflutningur aflaheimilda hafi átt sér stað á milli tímabila.

Landaður afli
2010  2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017
Reykjavík 112.988 125.492 117.489 126.586 131.246 117.779 106.456 99.545
Akranes 34.717 34.216 46.359 28.610 21.884 28.839 5.905 19.370
Alls 147.705 159.708 163.848 155.196 153.130 146.618 112.361 118.915

Á árinu 2017 komu alls 1.516 skip yfir 100 brt. til Faxaflóahafna og er það fjölgun á milli ára um 14 skip. Þar af voru skemmtiferða skip 135 og farþegar með þeim um 128.000. Veruleg aukning hefur orðið á síðustu árum í fjölda brúttótonna m.a. vegna komu stærri skemmtiferðaskipa. Brúttótonnafjöldi skipa á árinu 2017 var 11,2 milljónir tonna og var aukningin um 20%. Þróun varðandi komur skemmtiferðaskipa og farþega er sú sama og undanfarin ár og fjölgar bæði skipakomum og farþegum. Tekjur af skemmtiferðaskipum voru á árinu 2017 um 9% af heildartekjum, en þar á móti er kostnaður af þjónustu og dráttarbátum Í lok árs 2017 voru 67 fastráðnir starfsmenn hjá Faxaflóahöfnum sf. að teknu tilliti til sumarafleysinga og sumarstarfa í Bækistöð eru ársstörf innan fyrirtækisins um 77.

Störf 2013 2014 2015 2016 2017
Hafnarþjónusta 32 32 32 31 32
Bækistöð 13 13 13 12 12
Tæknideild 3 3 3 3 4
Skrifstofa 12 13 12 13 12
Húseignir 2 2 2 2 2
Siglingavernd – Umhverfismál 1 1 5 5 5
Alls 63 64 67 66 67

Að auki um 15 sumarstarfsmenn í Bækistöð og 2-3 til afleysinga í hafnarþjónustu yfir sumarmánuðina.

Ástæða er til að færa starfsfólki Faxaflóahafna þakkir fyrir vel unnin störf og hlutdeild þeirra í ágætum árangri árið 2017.