Skipulags- og lóðamál
Skipulags- og lóðamál
Unnið var að undirbúningi deiliskipulags svæðisins utan Klepps. Auk skipafélaganna, Samskipa og Eimskipa hafa allmörg fyrirtæki sótt um lóðir á svæðinu utan Klepps, sem er um tíu hektarar að stærð. Sú kvöð er á svæðinu í aðalskipulagi að fyrirhuguð lega Sundabrautar liggur þvert yfir það með allt að fjögurra hektara helgunarsvæði. Þá hefur verið skoðað hvort koma megi lögreglunni í Reykjavík, Ríkislögreglustjóra og embætti tollgæslunnar fyrir á lóð Klepps.
Í Örfirisey hafa skipulagsmál verið til umfjöllunar og var stærsta verkefnið þar deiliskipulag svonefnds Línbergsreits. Samkomulag er þar í gildi milli Faxaflóahafna og lóðarhafa um skipulagningu á um 30.000 m² reit. Örfirisey hefur á síðustu árum tekið breytingum. Breytingar hafa orðið í útgerð og fiskvinnslu og skilgreining á hugtakinu “hafnsækin starfsemi” ekki sú sama og áður var. Með fullvinnslu sjávarafla, nýrri tækni og vinnsluaðferðum má segja að hafnsækin starfsemi muni á komandi árum tengjast þróun og hugviti í sjávarútvegi. Þar getur Örfirisey áfram gegnt veigamiklu hlutverki í sjávarútvegi sem þekkingarmiðstöð og uppspretta nýrra tækifæra.
Unnið var að skipulagsmálum vegna vita við Sæbraut og gert ráð fyrir að vitinn verði kominn í notkun árið 2018.
Fyrir liggja forsendur deiliskipulags á svonefndum Tollvörugeymslu- og Kassagerðarreit við Héðinsgötu og Köllunarklettsveg, en áður en eiginleg skipulagsgerð hefst er beðið húsakönnunar. Þá liggur fyrir samþykkt deiliskipulag á grundvelli tillögu Yrkis arkitekta um aðstöðu fyrir farþega hafsækinnar ferðaþjónustu við Suðurbugt. Einnig liggur fyrir forsenda deiliskipulags sem gerir ráð fyrir aðstöðu farþega skemmtiferðaskipa á Miðbakka. Áfram verður unnið að útfærslu þeirra hugmynda.
Á Akranesi hefur verið til skoðunar stækkun aðstöðu vegna mögulegrar þróunar hafnarinnar, en hluti mannvirkja og þá aðallega fremsti hluti Aðalhafnargarðsins kallar á viðhald og endurnýjun. Meginverkefnið hefur falist í breytingu á aðalskipulagi þannig að unnt verði að endurnýja fremsta hluta Aðalhafnargarðsins og lengja hann. Löndun á fiski í Akraneshöfn hefur dregist verulega saman síðustu ár auk þess sem smábátaútgerð hefur þar átt undir högg að sækja eins og víða á landinu.