Inngangur
Faxaflóahafnir sf. leggja áherslu á að vera leiðandi í umhverfismálum, draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá starfseminni og vinna að stöðugum úrbótum í umhverfismálum.
Starfsemi Faxaflóahafna var vottuð á árinu 2017 samkvæmt alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO 14001. Faxaflóahafnir eru fyrst hafna á Íslandi til að fá þessa vottun. Vottunin er viðurkenning á heildstæðri umhverfisstefnu Faxaflóahafna. Stefnan er á heimsíðu fyrirtækisins. Faxaflóahafnir leggja áherslu á að minnka umhverfisáhrif frá rekstri fyrirtækisins með því að nýta auðlindir á ábyrgan hátt, stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr magni úrgangs og farga honum á ábyrgan hátt.
Faxaflóahafnir hafa óskað eftir af hálfu almennings, viðskiptavina og fyrirtækja á hafnarsvæðinu að umhverfismál skulu ávallt höfð að leiðarljósi í umgengni og starfsemi á hafnarsvæðinu.
Grænt bókhald inniheldur upplýsingar um árangur fyrirtækisins í umhverfismálum. Birting þess er leið fyrirtækisins til að miðla upplýsingum til almennings, viðskiptavina og þjónustuaðila
Grænt bókhald inniheldur upplýsingar sem eiga við um mikilvæga umhverfisþætti í starfsemi Faxaflóahafna. Niðurstöður ársins 2017 eru bornar saman við árið 2016 til að meta árangur sem náðst hefur milli ára auk þess sem niðurstöður síðustu fimm ára má sjá á myndum.
Þeir umhverfisþættir sem voru vaktaðir árið 2017 eru:
- Raforka (notkun og sala)
- Heitt og kalt vatn (notkun og sala)
- Eldsneytisnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda, frá ökutækjum og skipum
- Pappírsnotkun á hvern starfsmann
- Úrgangur og spilliefni, bæði frá starfsemi Faxaflóahafna og annarrar starfsemi á hafnarsvæðinu ásamt úrgangi frá skipum
- Mengunaróhöpp sem eru tilkynningarskyld
- Dýpkun hafna og ráðstöfun dýpkunarefna
- Landfyllingar á hafnasvæðum
- Gerlamengun í sjó
Það er einlægur vilji hafnastjórnar að hjá Faxaflóahöfnum sé unnið markvisst að umbótum í umhverfismálum og að fylgst sé með frammistöðu í þeim málum.