Umhverfismál
Umhverfismál
Sem fyrr hafa umhverfismál verið vaxandi þáttur í starfsemi Faxaflóahafna. Árið 2006 var grænt bókhald tekið upp og síðustu ár hafa verið framkvæmdar sjávargæðamælingar á hafnarsvæðum fyrirtækisins. Þá var umhverfisstefna Faxaflóahafna endurskoðuð og á grundvelli hennar var umhverfisstjórnunarkerfi fyrirtækisins vottað, sem er veigamikill áfangi. Faxaflóahafnir eru því fyrst íslenskra hafna til að taka upp umhverfisstjórnunarkerfi, sem undirstrikar mikilvægi þessa málaflokks í starfseminni. Vottunin er samkvæmt staðlinum ISO 14001 og viðeigandi að á 100 ára afmæli Gömlu hafnarinnar hafi þessi áfangi náðst. Í undirbúningi er síðan að fá vottun á öryggisstjórnunarkerfi Faxaflóahafna sf.
Árið 2016 samþykkti stjórn Faxaflóahafna sf. að öll skip sem tengst geta landrafmagni verði að tengjast. Á þeim grundvelli hefur verið unnið að úttektum á rafdreifikerfi hafnarinnar og undirbúið að styrkja lágspennukerfið í Gömlu höfninni, en á Akranesi hefur tenglum verið bætt við núverandi kerfi. Samhliða því hefur verið unnið að öflun upplýsinga um háspennukerfi, sem fyrirsjáanlegt er að muni þjóna stærri skipum í framtíðinni með það að markmiði að draga úr losun koltvísýrings og brennisteins eins og kostur er. Ísland hefur í loftslagsmálum undirgengist skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum um loftslagsmál og til þess að ná árangri á þeim vettvangi er ljóst að hafnir og útgerðaraðilar verða að taka þær skuldbindingar alvarlega. Þrátt fyrir að sjóflutningar séu almennt hagkvæmur flutningamáti þá eru tækifæri til að gera mun betur en gert er í dag á þessu sviði. Stjórn Faxaflóahafna sf. hefur ályktað um að bann verði sett við notkun svartolíu í Norðurhöfum og fyrirtækið undirritað yfirlýsingar þess efnis.